Um fÚlagi­

Félag tónskálda og textahöfunda , FTT , var stofnað sem óformlegur samráðsvettvangur árið 1981 af höfundum hryntónlistar og textagerðar á Íslandi.

Félagið starfaði óformlega fyrstu tvö árin, en frá formlegu stofnári 1983 hefur það víða látið til sín taka og eflt samstöðu meðal höfunda.

Í FTT eru nú 380 höfundar og er félagið annað tveggja aðildarfélaga STEFs, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar. Hitt félagið er Tónskáldafélag Íslands , vettvangur þeirra sem starfa á vettvangi klassískrar tónlistar.

Tilgangur FTT er m.a. að standa vörð um rétt íslenskra tónskálda og textahöfunda, að gæta hagsmuna félagsmanna á sviði höfundaréttar, sinna upplýsingaöflun og miðlun þess helsta sem er í gerjun á vettvangi höfundarréttarins innan lands sem utan, að efla samstöðu meðal félagsmanna og að stuðla að tíðari flutningi og aukinni útbreiðslu á verkum félagsmanna. Félagsmenn geta orðið allir þeir, sem samið hafa tónverk og / eða texta við tónverk og fengið verk sín flutt opinberlega, enda hafi þeir veitt STEFi umboð til að innheimta höfundarréttargjöld sín.

Félagsmenn FTT eru ýmist félagar eða aðalfélagar. Þeir einir eru aðalfélagar, sem fengist hafa við tónsmíðar og / eða textagerð um minnst þriggja ára skeið og njóta umtalsverðra tekna af flutningi verka sinna.

Félagsmenn FTT hafa m.a. rétt til að sækja um styrki, sem veittir eru árlega úr Tónskáldasjóði Rásar 2 og úr Tónskáldasjóði 365 , en þessum sjóðum er báðum ætlað að efla sköpun , útgáfu og útbreiðslu tónlistar sinnar. Hér á heimasíðunni getur að auki að líta lista yfir nokkra sjóði sem veitt hafa styrki til sköpunarverka á sviði tónlistar , textagerðar og margvíslegrar menningarstarfsemi.

FTT miðlar upplýsingum til félagsmanna sinna og veitir þeim aðstoð og ráðgjöf. Félagið hefur gefið út Íslensk dægurlög, 6 nótnahefti með efni eftir félagsmenn, söngbókina 250 íslenskir dægurlagatextar auk hefta með brúðkaupslögum og jólalögum. 

Félagið á aðild að eftirtöldum samtökum og ráðum:
STEF - Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar
SAMTÓNI – Samtökum tónlistarrétthafa
BÍL - Bandalagi íslenskra listamanna
Fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík
NPU - Nordisk Popular Autor Union
CIAM - International Council of Authors and Composers of Music
ECSA – European Composer & Songwriters Alliance
APCOE - Alliance of Popular Composers Organisations in Europe
FFACE – Federation of Film and Audiovisula Composers of Europe