┌thlutanir STEFs erlendis frß

STEF er aðili að alþjóðasamtökunum CISAC sem er samband höfundaréttarfélaga um víða veröld. Með gagnkvæmum samningum við systurfélög, sem einnig eru aðilar að CISAC tryggir STEF réttindi erlendra rétthafa hér á landi, og erlend systurfélög tryggja réttindi STEF-félaga í landi sínu. Þannig er höfundaréttargæsla net sem nær um heiminn allan. Hvert félag setur sér sínar reglur innan ramma höfundaréttarins og ákveður innheimtu- og úthlutunaraðferðir sínar. M.a. ræður hvert félag hversu mikið er greitt fyrir ákveðna tegund flutnings, en þær reglur gilda jafnt fyrir innlenda sem erlenda höfunda. Þetta þýðir með öðrum orðum að STEF getur ekki ákveðið hversu mikið eitthvert systurfélag á að greiða fyrir flutning á íslensku verki, en tekur á móti þeirri greiðslu sem send er, enda sé hún í samræmi við úthlutunarreglur viðkomandi félags. Upplýsingar um lengd og gerð verka eru sendar á milli landa til þess að fá sem réttastar greiðslur.

Greiðslur frá erlendum systurfélögum eru að berast allt árið, enda er misjafnt á hvaða árstíma hvert félag sendir úthlutanir sínar. Frá umsvifamiklum samtökum berast greiðslur ársfjórðungslega (t.d. JASRAC  í  Japan)  eða   tvisvar á ári (t.d. PRS í Bretlandi), en oftast berst greiðsla aðeins einu sinni á ári. Skilagreinar sem fylgja greiðslunum sýna hvaða verk voru leikin, hver höfundurinn er og hvernig höfundargreiðslan skiptist. Venjulega er verið að greiða fyrir spilun á næstliðnu ári eða árinu þar á undan. Ljóst er því að kerfið vinnur hægt en þó örugglega.

Greiðslum erlendis frá er úthlutað frá STEFi þrisvar til fjórum sinnum á ári, hinn 1. mars, 1. júní, 1. september og 1. nóvember. Þetta á þó aðeins við þær greiðslur sem fara yfir tíuþúsund krónur. Fjárhæðir sem ekki ná þeirri fjárhæð eru sendar út með aðalúthlutun STEFs í desember.

Á skilagreinum STEFs með erlendum úthlutunum má sjá frá hvaða landi greiðslan barst og hvaða verk var verið að leika. Senda þarf skriflega beiðni til þess að fá nánari útlistanir  á því hvernig greiðslan er til komin, en þó er engin trygging fyrir því að erlenda skilagreinin veiti frekari upplýsingar en koma fram á skilagrein STEFs.