Sam■ykktir fyrir Tˇnskßldasjˇ­ Bylgjunnar og St÷­var 2

1.    grein
Nafn sjóðsins er Tónskáldasjóður Bylgjunnar og Stöðvar 2. Aðild að honum eiga Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) og 365 ehf. (365).
Heimili sjóðsins er í Reykjavík.

2.    grein
Markmið sjóðsins er að styrkja tónskáld og textahöfunda til nýsköpunar á sviði tónlistar, sbr. þó 2. mgr. 5. gr.

3.    grein
Tekjur sjóðsins eru fjárframlög frá 365 samkvæmt samningi félagsins og STEFs um heimild til að flytja í útvarpi tónverk sem verndar njóta samkvæmt höfunda¬lögum, svo og gjafir og önnur fjárframlög frá öðrum aðilum. Að auki ávöxtun af höfuðstól sjóðsins, sbr. 1. mgr. 6. gr.

4.    grein
Stjórn sjóðsins skipa þrír menn, þar af tveir tilnefndir af STEFi og einn af 365 til þriggja ára í senn. Skal fulltrúi 365 í stjórninni vera formaður hennar. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt.
Stjórnarfundi skal halda samkvæmt ákvörðun formanns stjórnar eða ef einhver stjórnarmaður fer fram á það. Skal formaður boða til stjórnarfunda með hæfilegum fyrirvara. Stjórnin er ákvörðunarbær ef tveir stjórnarmenn eru mættir til fundar og ræður afl atkvæða úrslitum í stjórninni, nema atkvæði falli jöfn, en þá ræður atkvæði formanns.
Fundargerð skal halda um það sem fram fer á stjórnarfundum.

5.    grein
Stjórn sjóðsins úthlutar styrkjum úr honum og skulu styrkir að jafnaði veittir á grundvelli umsókna, þar sem fram skal koma tilgangur styrkumsóknar og kostn¬aðar- og tíma¬áætlun vegna þess verkefnis sem um er að ræða. Miða skal við að auglýst sé opinberlega eftir styrkjum í maímánuði hvert ár og umsóknir séu afgreiddar innan þriggja vikna frá því að umsóknarfrestur rennur út.
Stjórninni er heimilt að veita aðildarfélögum STEFs, Tónskáldafélagi Íslands og Félagi tónskálda og textahöfunda, styrki til starfsemi félaganna, enda fari slíkir styrkir til hvors félags ekki fram úr 5% af árlegum tekjum sjóðsins, sbr. 3. mgr.
Óheimilt er að úthluta meira úr sjóðnum á ári hverju en nemur 90% af árlegum heildartekjum hans, þar með töldum tekjum vegna ávöxtunar höfuðstóls.
 

6.    grein
Sjóðurinn skal vistaður hjá STEFi sem sérstök deild í Tónmenntasjóði STEFs. Sér skrifstofa STEFs um fjárhald sjóðsins, þar á meðal að greiða styrki úr honum samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar. Ávaxta skal höfuðstól sjóðsins á þann hátt, sem gefur á hverjum tíma hæstu ávöxtun, þó þannig að áhættu sé dreift hæfi¬lega.
Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda STEFs og síðan lagður fram til samþykktar í stjórn sjóðsins.

7.    grein
Sjóðurinn skal því aðeins lagður niður að stjórnir STEFs og 365 samþykki það. Skulu þá fjármunir sjóðsins skiptast að jöfnu milli beggja aðila.

8.    grein
Samþykktir þessar öðlast gildi um leið og STEF og 365 hafa samþykkt þær.


Ákvæði til bráðabirgða:

Fyrsta stjórn sjóðsins skal skipuð forstjóra 365 og formanni og varaformanni STEFs. Varamenn skulu vera staðgenglar þeirra. Skipunartími stjórnarinnar rennur út 31. desember 2009 og skal þá tilnefna stjórnarmenn og varamenn þeirra í samræmi við 1. mgr. 4. gr.