ReykjavÝk Loftbr˙ - Fer­astyrkur

Forsendur styrkveitinga Reykjavíkur Loftbrúar

1.gr.
Grunnskilyrði og staðfestingar

Hlutverk Reykjavíkur Loftbrúar er að styðja og örva íslenskt tónlistarfólk til útbreiðslu og kynningu verka sinna á alþjóðlegum vettvangi. Sjóðurinn styrkir fyrst og fremst flutning og kynningu á íslenskri tónlist með 2 milljóna króna styrkveitingu til allt að fimm valinna atriða.

Skilyrði styrkveitinga frá Reykjavík Loftbrú er að styrkþegar:

Hafi gefið út efni með eigin verkum og/eða flutningi.

Starfi með tónleikabókara og/eða útgefanda eða öðrum sambærilegum aðila sem vinnur að framgangi þeirra á erlendum vettvangi .

Geti lagt fram gögn um verkefni á erlendri grundu sem að mati úthlutunarnefndar er talið geta styrkt ímynd Reykjavíkur og Íslands alls sem uppsprettu framsækinnar menningar og öflugs tónlistarlífs.

Umsækjendur þurfa að leggja fram áætlun um tónleikahald og/eða framkomu tengda fjölmiðlum og kynningarviðburðum á erlendum vettvangi á því tímabili sem styrkjarins nýtur við (miðað er við eitt til tvö ár) ásamt staðfestingu á samstarfi við tónleikabókara og/eða útgefanda eða aðra sambærilega aðila.

 

Fylgigögn umsóknar verða að berast áður en kynntur umsóknarfrestur rennur út, annars er umsóknin ekki tekin til greina.

 

Reykjavík Loftbrú skuldbindur sig til að fara með öll gögn tengd umsóknum sem fyllsta trúnaðarmál.

 

 

2. gr.

Styrkþegar og fjöldi styrkveitinga

Reykjavík Loftbrú veitir 2 milljón króna styrk til allt að fimm verkefna.

Að öllu jöfnu skulu þeir sem aðild eiga að STEF, FHF og FÍH ganga fyrir við úthlutanir.

Sjóðsstjórn og/eða úthlutunarnefnd er heimilt að veita undanþágu frá þessum ákvæðum liggi sterkar röksemdir að baki.

 

 

3. gr.

Takmarkanir á styrkveitingum

Styrkur sem veittur er í maí á tilteknu ári, nýtist út næsta ár þar á eftir (20 mánuði) en eftir það rennur gjafabréfið út.

Sjóðurinn styrkir ekki ferðir á fundi, þátttöku í ráðstefnum, upptökur og ferðir sem ekki innifela flutning á lifandi tónlist.

Stuðningur Reykjavíkur Loftbrúar er í formi gjafakorts sem styrkþegar nýta til að kaupa flugferðir með Icelandair og aukafarangur sé þess þörf. Ferðir miðast við áfangastaði Icelandair.

Styrkþegi ber þann kostnað sem hlýst af hugsanlegri uppfærslu og/eða breytingum á farmiðum eftir að bókun á sér stað og getur nýtt til þess gjafabréfið.

Gangi áætlun styrkþega um notkun styrkjarins ekki eftir er úthlutunarnefnd heimilt að afturkalla styrkinn.

Verði vart við notkun á gjafabréfi sem ekki fellur undir grunnskilyrði fyrir styrkveitingu sem fjallað er um í fyrstu grein hér að ofan er úthlutunarnefnd heimilt að afturkalla styrkinn.

 

 

4. gr.

Umsóknir og skilafrestir

Skilafrestur umsókna er auglýstur sérstaklega í hvert skipti sem opnað er fyrir umsóknir.

Umsóknir skulu innihalda greinargóða lýsingu á verkefninu, upplýsingar um fyrirhugaðar ferðir / tónleikaferðalög og áfangastaði, kennitölur og nákvæmt hlutverk hvers og eins í verkefninu. Styrkþegi sér sjálfur um að bóka farmiða með því gjafabréfi sem hann fær úthlutað. Þurfi að breyta bókun eftir að hún hefur verið staðfest getur það falið í sér aukakostnað sem sem styrkþegi sér sjálfur um að greiða og getur notað til þess gjafabréfið..

Verði breytingar á áætlun styrkþega um verkefni sem þegar hefur verið bókað getur viðkomandi sótt um endurgreiðslu á sköttum til Icelandair og verður upphæðin þá aftur lögð inn á gjafakort viðkomandi styrkþega. Þjónustugjald að fjárhæð 2.500 kr. fyrir hvern veittan farmiða dregst frá endurgreiðslu í slíkum tilfellum.

 

5. gr.

Fyrirkomulag afgreiðslu

Úthlutunarnefnd fjallar um umsóknir í tvær vikur að skilafresti liðnum. Tilkynna skal um styrkþega innan fjögurra vikna frá skilafresti.

Úthlutun felur í sér skuldbindingu styrkþega til að skila greinargerð um nýtingu og gagnsemi styrksins innan mánaðar eftir síðustu ferð með stuðningi sjóðsins.

 

Samþykkt af stjórn Reykjavíkur Loftbrúar í mars 2018

 

 

 

Reykjavík Loftbrú 2018


Samningur


1.gr. Tilgangur sjóðsins

Reykjavík Loftbrú er sjóður stofnaður til að styðja við bakið á íslensku tónlistarfólki sem vill hasla sér völl á erlendri grundu og kynna um leið Reykjavík, land og þjóð. Í stofnun sjóðsins felst viðurkenning á hlut tónlistar og lista í kynningu á Reykjavík sem nútímalegrar tónlistar- og menningarborgar og spennandi viðkomustaðar ferðamanna. Þessu markmiði sinnir sjóðurinn með því að veita ferðastyrki að andvirði 2 m.kr. hver til allt að fimm valinna atriða. Styrkir skulu renna til greiðslu ferðakostnaðar samkvæmt nánari skilgreiningu.

 

 

2. gr. Samningsaðilar og framlög

Aðilar sjóðsins eru Icelandair, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), Félag hljómplötuframleiðanda (FHF) og Reykjavíkurborg.

FÍH skuldbindur sig til að leggja sjóðnum árlega til 1.5 m.kr.
STEF skuldbindur sig til að leggja sjóðnum árlega til 1.5 m.kr.
Félag hljómplötuframleiðenda (FHF) skuldbindur sig til að leggja sjóðnum árlega til kr. 500.000.
Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að leggja sjóðnum til árlega 2.5 m.kr.
Icelandair skuldbindur sig til að láta sjóðnum í té gjafabréf til kaupa á farmiðum að upphæð 6 m.kr.
Sjóðurinn verður í umsýslu ÚTÓN, sem sér um að taka við umsóknum og fylgigögnum, svara fyrirspurnum umsækjenda og kalla eftir skýrslum styrkþega. ÚTÓN sér jafnframt um að senda aðilum sjóðsins reikninga fyrir framlagi og árlegt yfirlit um úthlutanir og fjárhagsstöðu hans.

Nái sjóðurinn ekki að nýta allt sitt fjármagn á einu starfsári, skal fjármagn færast á milli ára og nýtast þannig þegar kemur að næstu úthlutun.

 

3. gr. Sjóðsstjórn og úthlutunarnefnd

Í stjórn sjóðsins skulu sitja tveir fulltrúar tónlistarmanna tilnefndir af FÍH og STEF, einn fulltrúi útgefenda, tilnefndur af FHF, einn fulltrúi tilnefndur af Icelandair og einn fulltrúi Reykjavíkurborgar tilnefndur af menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Reykjavíkurborgar skal jafnframt vera formaður. Sjóðsstjórn er heimilt að fela fimm manna úthlutunarnefnd á sínum vegum að afgreiða styrkumsóknir enda séu öll skilyrði styrkveitinga uppfyllt samkvæmt reglum sem sjóðsstjórn setur. Úthlutunarnefnd skal funda eins og þörf krefur frá því að umsóknarfrestur er liðinn og fram að úthlutun. Úthlutunarnefnd er skipuð í eitt ár í senn af fulltrúum allra samningsaðila. Jafnframt er sjóðsstjórn heimilt að skipa einn eða fleiri faghópa til að meta umsóknir eða leita ráðgjafar um einstakar styrkveitingar eftir því sem þurfa þykir.

 

 

4. gr. Störf stjórnar

Sjóðsstjórn setur nánari reglur um úthlutun styrkja. Sjóðsstjórn kemur saman reglulega og eigi sjaldnar en árlega. Að öðru leyti eftir þörfum samkvæmt ákvörðun formanns, beiðni meirihluta stjórnar eða nánara samkomulagi. Umsóknum sem falla utan meginreglna skal úthlutunarnefnd vísa til ákvörðunar stjórnar.

 

 

5. gr. Skilyrði styrkveitinga

Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um skilyrði styrkveitinga og úthlutun styrkja - sjá nánar fylgiskjal I. Í skilyrðum skal m.a. kveðið á um hvaða gögn þurfi að liggja fyrir til að styrkveiting geti átt sér stað. Jafnframt skal kveðið á um hvernig og hversu oft á ári úthlutað er úr sjóðnum. Reglur sjóðsins skulu vera aðgengilegar á heimasíðum allra aðila sjóðsins. Til að geta hlotið styrk úr sjóðnum þurfa umsækjendur að leggja fram gögn til staðfestingar því að fyrir dyrum standi tónleikaröð, tónleikahald, framkoma í fjölmiðlum eða annað sem telst hluti af kynningu eða markaðssókn erlendis og sjóðstjórn metur styrkhæft. Eins þurfa umsækjendur að leggja fram staðfestingu á samstarfi við tónleikabókara og/eða útgefanda eða aðra sambærilega aðila.

 

 

6. gr. Skuldbindingar styrkþega

Styrkþegar eru skuldbundnir til að skila greinargerð um nýtingu og gagnsemi styrksins innan mánaðar eftir síðustu ferð með stuðningi sjóðsins.

 

 

7. gr. Starfstími, varðveisla og rekstur

Aðilar samningsins skuldbinda sig til að framlengja starfstíma sjóðsins út árið 2018 en ákvörðun um áframhaldandi starfsemi sjóðsins skal tekin eigi síðar en í nóvember 2018. Sjóðurinn skal vistaður hjá ÚTÓN sem varðveitir jafnframt gerðarbók hans og gögn. Laun stjórnarmanna skulu taka mið af sambærilegum stjórnarlaunum á vettvangi Reykjavíkurborgar en hver aðili ber ábyrgð á greiðslum til sinna stjórnarmanna.