News in english

SkrßningarsÝ­a ═slensku tˇnlistarver­launanna

 

Verk þarf að skrá fyrir miðnætti þriðjudaginn 29. nóvember og er þátttakan endurgjaldslaus. Um er að ræða verk gefin út á tímabilinu 1. janúar 2011 til 29. nóvember 2011. Innsend verk verða vistuð á sérstöku svæði hjá tonlist.is. Ekki er þó nauðsynlegt að verkin séu í sölu á tonlist.is en sérstakir forvalshópar og dómnefndir munu hafa aðgang að svæðinu til að meta verkin.

Jafnframt er mælst til þess að 8 - 10 eintökum af hverju verki verði komið til Íslensku tónlistarverðlaunanna að Rauðagerði 27, 108 Reykjavík eða, þar sem við á, að tónverk og/eða upptaka sé gerð aðgengileg hjá Tónverkamiðstöð. Tilnefningar verða tilkynntar um miðjan desember 2011 en afhending verðlaunanna fer fram í lok febrúar 2012.

Breyting á tilnefningaferli

Í ár hefur sú breyting orðið á tilnefningaferli Íslensku tónlistarverðlaunanna að sérstakir leynilegir forvalshópar hafa verið settir á laggirnar en þeir eru þrír talsins:

  • Popp, Rokk
  • Jazz, Blús
  • Sígild - og samtímatónlist

Alls skipa 9 manns hvern hóp og vita aðilarnir sem skipa hópinn ekki hver af öðrum. Stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna skipar í hópana og reynir eftir bestu getu að gæta jafnræðis hvað aldur, kyn, störf og annað varðar.

Hlutverk einstaklinga í forvalshópum er að kjósa um verk eftir flokkum með því að gefa stig og velja þannig hvaða verk komast áfram til dómnefnda sem jafnframt eru þrjár. Unnið verður úr niðurstöðum forvalshópanna áður en þær fara til dómnefnda og þess gætt að dómnefndir fái lista í hverjum flokki sem er helmingi lengri en endanlegar tilnefningar eiga að vera. Ef tilnefna á 5 plötur í flokknum Plata ársins (Popp, rokk) fær dómnefndin 10 efstu tilnefningarnar frá forvalshópnum en dómnefndin sér svo um að ákveða endanlegu tilnefningarnar fimm.

Með forvalsfyrirkomulaginu og skipun dómnefnda eftir tónlistartegundum er markmiðið það að fleiri fái að hafa áhrif á tilnefningar Íslensku tónlistarverðlaunanna og að ekki sé um að ræða eina allsráðandi dómnefnd.

Ný stjórn
Skipuð hefur verið ný stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna en hún samanstendur af  þeim Eiði Arnarssyni, Atla Ingólfssyni, Róberti Þórhallssyni og Maríu Rut Reynisdóttur sem jafnframt er framkvæmdastjóri verðlaunanna.

Íslensku tónlistarverðlaunin eru haldin fyrir tilstuðlan hagsmunafélaga tónlistarinnar undir merkjum
Samtóns.

Fyrir frekari upplýsingar:
Heimasíða verðlaunanna: 
http://www.iston.is/
Netfang: 
iston@iston.is
Sími: 897 5357 (María Rut)