News in english

Farvel meistari - ═ minningu Ëlafs Gauks ١rhallssonar, hei­ursfÚlaga FTT

 

Benjamín dúfa fór með himinskautum á vængjum tónlistar Ólafs Gauks. "Upp, upp mín sál" væru  viðeigandi einkunnarorð þess sem sífellt  braust til æðri  mennta og vega í tónheimum  - og væru nærtækt þema hamhleypu sem  starfaði svo ötullega á vettvangi upplifunargeirans, helsta vaxtarsprota nútímans.

Síðustu tvær námstarnir Ólafs Gauks Þórhallssonar áttu sér stað í Los Angeles. Guðs eina landi. Hann lauk kvikmyndatónlistarnámi á sextugsaldri  og framhaldsnámi í jazzgítarleik um sjötugt. Var þó vel skólaður fyrir. Ólafur Gaukur miðlaði þekkingu sinni til þúsunda nemenda og var að til hinsta dags. Afburða gáfum sínum og hæfni deildi hann örlátlega með þjóð sinni frá unglingsaldri, glæddi áhuga og hlúði að hæfileikum.
Hann var  frábær textasmiður ekki síður en tónskáld, útsetjari, gítarmeistari og hljómsveitarstjóri.  Eftir hann liggur mikið safn verka.

Ólafur Gaukur gegndi trúnaðarstörfum , m.a. fyrir  STEF ,Félag tónskálda og textahöfunda og Félag íslenskra hljómlistarmanna, hlaut heiðursviðurkenningu Íslensku tónlistarverðlaunanna 2006, var gerður að heiðursfélaga Félags tónskálda og textahöfunda 2008 og hlaut Fálkaorðuna sama ár. Er þá fátt eitt talið af  slíkum bautasteinum. Minnisvarðarnir  eru fyrst og fremst verkin sem eftir hann liggja .

Ólafur Gaukur var stílisti fram í fingurgóma. Hann skóp afar sérstæðan hljóm sem varð einkennismerki hans; listilega útsett og glimrandi samspil rafgítars og alt saxófóns sem einkenndi  t.a.m. Sextett Ólafs Gauks og Svanhildar alla tíð. Öll umgjörð, útlit og stílbrögð þáttanna „Hér gala Gaukar“ báru og stílistanum Ólafi Gauki einstaklega skemmtilegt vitni.

Það kom því ekki á óvart að Gaukurinn skyldi áttræður velja sólbjartan Hvítasunnudag til hinstu farar. Á þeirri vegferð kunna Vegir að liggja til allra átta; hann getur stoltur horfst í augu við Bláu augun, vitjað Kútters frá Sandi og  heimsótt Benjamín dúfu í hæstu hæðum.  Upp, upp, Gaukurinn og dúfan. Á vit nýrra tíðnisviða. Farvel meistari. Tónlistin lifir. Þökk fyrir okkur.

Jakob Frímann Magnússon, formaður FTT, Félags tónskálda og textahöfunda .