News in english

Af Eurovision 2011

 

Aftur heim heitir sigurlagið í Eurovision þetta árið. Höfundur lagsins er Sigurjón heitinn Brink og textann gerði Þórunn Erna Clausen, ekkja hans.  Sigurinn var verðskuldaður og augljóst að afslöppuð framkoma flytjendanna átti stóran þátt í sigrinum. Lagið er lauflétt og grípandi og minnir að mörgu leyti á einstaka lög sem Danir hafa sent í úrslitakeppnina á undanförnum árum.  Að vanda sýnist sitt hverjum og það sem hefur kannski vakið hvað mesta athygli á undanförnum dögum eru furðuleg skrif í skjóli nafnleyndar á hinum ýmsu síðum internetsins þar sem blessunin hún Jóhanna Guðrún er nídd fyrir það eitt að hafa ekki verið skælbrosandi þegar hún heyrði þær fréttir að hún hefði ekki sigrað.  Slík umræða dæmir sig vitaskuld sjálf.  Eins og svo oft áður vantaði verulega upp á að helstu lagahöfundar landsins sendu lög í keppnina og þetta virðist vera orðið viðvarandi vandamál sem þarfnast rækilegrar skoðunar og munum við hjá FTT ekki láta hjá liggja að taka þátt í því verkefni.  Að mati RUV var óþarfi að minnast á höfunda texta þeirra laga sem flutt voru nema í kreditlista í lok þáttarins. Hinsvegar var lagahöfundinum hampað sem og auðvitað flytjendum. Þetta er auðvitað algjörlega út úr kortinu að áliti okkar félagsmanna og voru yfirmenn RUV látnir vita um óánægju félagsmanna með þessi vinnubrögð.  Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun þessarar keppni sem allir virðast hafa skoðun á - ár eftir ár.